Var að koma heim af afar áhugaverðum fyrirlestri. Fyrirlesarinn náði mér eiginlega strax með yfirgnæfandi breskum hreim og hressilegum, breskum og temmilega kaldhæðnum húmor. Ég er mikill aðdáandi breska hreimsins og sér í lagi finnst mér það heillandi ef karlmenn tala með breskum hreim. Ég á það nefnilega til að setja breskan hreim í samhengi við persónuleika og uppeldi viðkomandi aðila. Ef ég hlusta á karlmann tala með breskum hreim þá fæ ég það strax á tilfinninguna að hann hafi verið einstaklega vel upp alinn og kunni mannasiði og borðsiði betur en flestir. Ég felli iðulega strax þann dóm að með breska hreimnum hljóti að fylgja mikil háttprýði og kurteisi.
Auðvitað er þessi tenging alveg út í hött og ég hef vissulega kynnst bæði mönnum og konum með hvínandi breskan hreim sem kunna enga sérstaka mannasiði og eru ekkert sérlega vel upp alin. Það er samt sem áður eitthvað við breska hreiminn sem blekkir og beygir huga minn á þennan hátt í hvert skipti sem ég heyri einhvern nota hann. Það er auðvitað þeim sem talar verulega í hag að ég skuli hugsa svona því um leið og til dæmis fyrirlesarinn í morgun opnaði á sér munninn var ég farin að dáðst að háttvísu og frábæru uppeldi hans. Ég sá strax fyrir mér hversu frábærlega kurteis og prúður hann væri í tilsvörum og hvernig hann kynni sig við allar aðstæður.... Já einmitt ég komst alveg á flug og innihald fyrirlestrarins hefði nánast ekki skipt máli, mér hefði fundist það áhugavert. Já svona er hugurinn skemmtilega skrýtinn. En ég veit af þessari brenglun hjá mér og hef þar af leiðandi örlítinn vara á þegar ég byrja að dáðst að fólki sem talar með breskum hreim.
Thursday, April 16, 2009
Subscribe to:
Posts (Atom)