Síminn hringir... ég svara. Það er Hera – hún er heima hjá afa og ömmu.
Það er rosalegur geitungur í bílskúrnum hjá afa og ömmu og þú verður að koma segir hún á innsoginu. Geitungur? spyr ég efins en vil samt alls ekki missa af þessum merkisviðburði og segi því varla bless heldur skelli bara á.Klæði mig í kínaskóna og rýk út. Hleyp af stað, í áttina að Hólaróló, hleyp eins hratt og kínaskórnir komast. Venjulega eru hólarnir fjórir, ég get svarið að þeir eru tíu núna og miklu stærri en venjulega. Ég hægi á mér eitt andartak, það eru krakkar á róló og dekkjarólurnar eru lausar...
Nei ég ætla ekki að missa af þessu... Hera hljómaði mjög æst í símann. Held áfram að hlaupa. Kem í Kambahraunið, móð og másandi, af hverju eiga amma og afi ekki heima í fyrsta húsinu? Í staðin eiga þau heima í næstsíðasta húsinu í bottlanganum svo hlaupið er í raun bara hálfnað þegar ég kem í Kambahraunið.
Þau standa öll fyrir utan bílskúrinn þegar ég kem. Amma, afi og Hera. Afi ætlar að reyna að veiða hann í glas segir Hera æst. Í glas? Spyr ég efins og andstutt eftir hlaupið. Já það er miklu betra, segir Hera, ef maður reynir að drepa hann og mistekst þá verður hann alveg brjálaður og ræðst á mann!
Drepa geitunginn?
Nú er ég farin að halda að Hera sé að stríða mér. Af hverju myndi afi vilja drepa geitarunga. Hvar er hann annars, ég sé ekkert inni í bílskúr segi ég og klessi nefið að rúðunni.
Geitar-unga, étur Hera upp eftir mér, þetta er ekki geitarungi, þetta er geitungur Eva. Svo leggst hún í grasið og öskrar af hlátri. Ég horfi skilningssljó á ömmu... Amma hlær og segir: Nei skottan mín þetta er ekki kiðlingur þetta er randafluga.
Ég labba af stað aftur á róló, á meðan Hera er komin með illt í magann af hlátri. Ég vona að dekkjarrólurnar séu ennþá lausar.