
Mér finnst alltaf magnað hvernig hægt er að ala á nostalgíu og tilfinningum fólks þegar harðnar á dalinn og þrengir að. Ég er líka alltaf jafn hissa á því hvað fólk er illa í stakk búið að takast á við núið og virðist geta leitað endalaust í "eitthvað sem einu sinni var". Svona eins og þegar við rifjum upp hvernig þetta var í gamla daga þegar unga fólkið var kurteisara, þegar fólk heilsaðist úti á götu, þegar kennarar kenndu eitthvað af viti, þegar pólitíkusar sinntu starfi sínu af heiðarleika, þegar verkamenn unnu meira og kvörtuðu minna, þegar vatnið var tærara, loftið hreinna og sólin skein oftar.
Mér finnst alltaf soldið varhugavert að ala á svona "long lost feelings" og nostalgíu sem í flesta staði er varla mikið annað en óskhyggja eða í besta falli betrumbætt minningarbrot. Ég er ekki að segja að eitthvað hafi ekki verið vel gert í fortíðinni heldur að minna á að það hjálpar sjaldnast að upphefja löngu liðna tíma og gleyma að líta á stöðuna eins og hún er í dag. Það er hins vegar kjörið tækifæri fyrir auglýsendur, stjórnmálamenn og aðra sem vilja hafa áhrif á hegðun eða hugsanir fólks í landinu að nýta sér þetta tæki til hins ýtrasta. Fólk ætti alltaf að leitast við að setja alla umræðu í samhengi við raunverulegt umhverfi hennar en ekki löngu liðna tíma sem hafa ekkert með málið að gera.
Hvers vegna að velja Icelandair?
Icelandair myndin er ný auglýsing frá þeim og er einmitt dæmi um tilraun til þess að höfða til tilfinninga fólk sem voru einu sinni tengdar þessu eina flugfélagi landsins, óskabarni þjóðarinnar. Flugfélagið hefur skorið niður þjónustu sl. ár og það eru ekkert sérlega margar ástæður fyrir því af hverju ég valdi Icelandair þessi jólin til að komast heim. Mér finnst ég vera að borga allt of mikið fyrir að komast af meginlandi Evrópu til Íslands. Ég er semsagt að borga um það bil 100.000 kr. fyrir miða frá London til Íslands og aftur til baka (fyrir mig og Lárus) á meðan ég borga 80 Evrur (sem jafnvel á rugl gengi dagsins í dag er ekki nema 14.672 kr
http://www.xe.com/) fyrir okkur bæði frá Bilbao til London sem er mun eðlilegra.
Ég varð hins vegar að velja Icelandair þar sem það eru ekki nægilega mörg flug með Iceland Express til að tengjast mínu flugi frá Spáni. Hefði ég valið Iceland Express hefðum við þurft að gista í London og þá hefði verðmunurinn fljótt breyst. Ég valdi hins vegar ekki Icelandair út af þessum eldgömlu auglýsingum sem eiga að koma við einhvern streng í hjarta mínu - enda er ég sem betur fer kannski alltof ung til að muna eftir þessu.