Saturday, April 17, 2010

Mánuði síðar...

MA verkið gengur ágætlega, að mér finnst nokkuð hægt, að öðrum finnst nokkuð hratt. Niðurstaðan er sú að tíminn er afstæður.

Fræðilegi hlutinn er kominn á ís í smá stund, "case study" eða dæmið sjálft, sem mun vera Ísland, íslenskt menntakerfi og nýjungar í menntastefnum, er nú í mótun. Ásamt vangaveltum og algjörum upphafshugmyndum um greiningu og niðurstöður. Ég held samt að þessi ritgerð fái engar niðurstöður, eða þannig. Kannski meira svona: Já þetta var nú áhugavert, eða athyglisvert. Sjáum hvað setur.

Mín helsta lexía í gegnum þessi skrif verður hins vegar sú að geta látið heitt spænskt sumar sem vind um eyru (og augu) þjóta. Ég horfi á hitamælirinn og hlæ. Blár himinn, þvottur á snúru sem blaktir í sumarsólinni og börn að leik í stuttbuxum og hlýrabol kveikja ekki einu sinni lengur í mér. Harkalegt, finnst ykkur ekki?

Já það er misjafnur lærdómurinn sem maður dregur af lífinu. Til dæmis sá að eldgos eru óþægileg og raska löngu áætluðum áætlunum.

Annars er ráðstefnan ennþá á döfinni, ég verð með póster. Ég er spennt og kvíðin. Meira spennt samt held ég. Þyrfti helst að ákveða nafn á ritgerðina áður en ég fer. Það eru allir soldið hneykslaðir á mér hér í skólanum að vera ekki komin með nafn á verkið - eins og það sé ekki hægt að skrifa ritgerð án titils?

Ég hef alltaf verið léleg þegar kemur að nafngiftum. Öll ljóð eftir mig eru "án titils", allir fiskarnir mínir hétu gúbbí og ég átti bara eina dúkku sem fékk nfn, Hera Sif skýrði hana líka. Allir brúnir bangsar hétu til dæmis bara kúkalabbi - lá beinast við. Ef ég verð svo lukkuleg að eignast börn einhverntíman þá verður Lárus settur í það að skýra þau, það er nokkuð ljóst.