Afar eru þarfaþing
Á Vopnafirði skín sólin og amma leiðir mig. Við hittum afa og hann gefur mér marglitt armband úr búðinni. Ég hleyp um í stóra garðinum í Kambahrauni og kalla á eftir afa: Afi skafi! Afi hlær. Ég horfi á afa smíða í bílskúrnum. Ég flýti mér að sofna á kvöldin þegar ég er í pössun hjá afa og ömmu því afi hrýtur svo hátt. Ég spila marías við afa allan daginn og drekk mjólk úr Tomma og Jenna glasi – afi leyfir mér stundum að vinna.
Ég fer í golf með afa og hann kennir mér að pútta án þess að beygja úlnliðinn. Ég sit á kaffihúsi í París með afa og við horfum á fólkið. Ég kem í mat til ömmu og afa í Breiðholtið og rökræði um pólitík og heimsmál við afa – hann leyfir mér ekki lengur að vinna heldur hlær að mér þegar ég er orðin rauð í framan af æsingi. En ég fæ samt ennþá að strjúka honum um skallann og kúra smá stund í hálsakotið hans þegar við sitjum saman í sófanum - þó ég sé orðin fullorðin - því ég verð alltaf afastelpa.