Monday, October 27, 2008

Minningargrein 26. október 2008 - Morgunblaðið

Afar eru þarfaþing

Á Vopnafirði skín sólin og amma leiðir mig. Við hittum afa og hann gefur mér marglitt armband úr búðinni. Ég hleyp um í stóra garðinum í Kambahrauni og kalla á eftir afa: Afi skafi! Afi hlær. Ég horfi á afa smíða í bílskúrnum. Ég flýti mér að sofna á kvöldin þegar ég er í pössun hjá afa og ömmu því afi hrýtur svo hátt. Ég spila marías við afa allan daginn og drekk mjólk úr Tomma og Jenna glasi – afi leyfir mér stundum að vinna.

Ég fer í golf með afa og hann kennir mér að pútta án þess að beygja úlnliðinn. Ég sit á kaffihúsi í París með afa og við horfum á fólkið. Ég kem í mat til ömmu og afa í Breiðholtið og rökræði um pólitík og heimsmál við afa – hann leyfir mér ekki lengur að vinna heldur hlær að mér þegar ég er orðin rauð í framan af æsingi. En ég fæ samt ennþá að strjúka honum um skallann og kúra smá stund í hálsakotið hans þegar við sitjum saman í sófanum - þó ég sé orðin fullorðin - því ég verð alltaf afastelpa.

Tuesday, October 14, 2008

Fyrir afa

Þetta fallega kvæði eftir Davíð Stefánsson er fyrir afa minn og líka smá í tilefni kreppu og einlægrar vonar minnar um að rómantíkin fari nú að taka við af neó-liberalisma og póstmódernisma. 


Hrosshár í strengjum og holað innan tré
-ekki átti fiðlingur meira fé

Í kotinu söng hann og konan sem þar bjó
-gaf honum nesti og nýja skó

Fiðlingur þráði fegurð og söng
-yfir honum vaggast eilífðin löng

Hrosshár í strengjum og holað innan tré
-ekki átti fiðlungur meira fé

Thursday, October 09, 2008

Heimför

Hlakka til að hitta fjölskylduna mína og kannski einhverja vini ef tími gefst til...

Kvíði fyrir að kveðja elsku afa minn í hinsta sinn, kyssa hann síðasta kossinn og gefa honum síðasta knúsið. Strjúka honum um skallann og kúra í hálsakotið hans. 

Sunday, October 05, 2008

Unga menntaða fólkið flýi ekki land...

Horfði á Silfur Egils í dag í gegnum netið og þar kom fram að helsta markmið ráðamanna ætti nú að vera það að halda unga og menntaða fólkinu heima á Íslandi þar sem það stefndi allt í landflótta.

Best að tæpa á nokkrum tölum hérna.

Heildarskólagjöldin mín sem skiptast nú til allra lukku í nokkrar greiðslur telja 7500 Evrur sem mér reiknaðist til að yrðu um það bil 860.000 íslenskar krónur í maí þegar ég sótti um námið. Ég borgaði um það bil 1/4 af þessari upphæð nú í maí sem svaraði ca 200.000 krónum. Í janúar þarf ég að borga annan fjórðung af heildarupphæðinni sem er nú orðin 1.200.000 krónur og fjórðungur af þeirri upphæð er því 300.000 kr.

Leiguna borgum við ennþá í íslenskum krónum þar sem við höfum ekki fengið neitt greitt í dönskum krónum enn hérna. Lárus vinnur samt alla daga og mun meira en hann ætlaði sér í upphafi og ég er komin á fullt í að sækja um vinnur. Þetta vonandi breytist í þarnæsta mánuði þegar við höfum lagt nægilega mikið fyrir í dönskum til að eiga fyrir leigunni í dönskum krónum.

Þegar við gerðum leigusamning fannst okkur leigan heldur dýr eða um það bil 7000 dkk á mánuði fyrir utan rafmagn. Hins vegar er íbúðin á æðislegum stað og fullbúin fínum húsgögnum. Heimafólk hérna sagði að við værum að gera mjög góðan díl og fengjum hreinlega ekki ódýrari íbúð þó við myndum leita um gervalla Kaupmannahöfn. Leigan var 98.000
íslenskar í ágúst, 119.000 íslenskar í september og verður 161.000 á morgun þegar við göngum frá leigunni fyrir október.

Já það er spurning hvort að unga, menntaða fólkið sjái sér fært að koma heim. Okkur þykir að minnsta kosti grasið grænna hérna megin í bili. Sjáum fyrir okkur að vinna hér í vetur, næsta sumar og veturinn þar á eftir og koma sem allra allra minnst heim. Það væri hreinlega eins og að henda peningunum út um gluggann. Nú er bara að safna dönskum peningum og reyna jafnvel að borga upp þær skuldir sem hafa hrannast upp heima fyrir og hækka með hverjum deginum.

Hressleiki :)