Monday, November 03, 2008

...og ertu þá leikskólakennari?

Árið 2004 skráði ég mig í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Þá vissi ég ekki sjálf fullkomlega út á hvað námið gengi eða hvað ég gæti "orðið" eftir að hafa lært. Með árunum varð mér betur ljóst út á hvað námið gekk og ég lærði heilmargt um nám, reynslu, kennslu, einstaklinga, samfélög, kynhlutverk, uppeldi, þroska og margt fleira. Það skýrðist hins vegar ekki mikið betur hvað ég ætlaði mér að "verða". 

Síðan ég útskrifaðist hef ég haldið áfram á svipaðri braut. Lærði reyndar til kennsluréttinda í fyrra og það árið reyndist mjög auðvelt að útksýra tilgang og markmið námsins: Kennsluréttindi veita rétt til að kenna. En ég ætlaði mér samt sem áður ekki endilega að verða kennari þegar ég yrði stór. 

Í dag er ég í masters námi sem kallast European Master in Lifelong Learning: Policy and Management. Nafnið eitt og sér eitt fælir fólk yfirleitt strax frá því að spurja eitthvað nánar út í námið... Svo núna slepp ég yfirleitt alveg við að útskýra tilgang og markmið þess náms sem ég er í. 

Sú almenna sýn sem fólk virðist hafa á nám og menntun finnst mér yfirleitt frekar takmörkuð. Lang flestir tengja saman ákveðið nám og ákveðna starfsiðn. Til dæmis er algengast að fólk haldi að ég ætli að verða leikskólakennari eftir að hafa lært uppeldis- og menntunarfræði. Ég veit ekki alveg hvaðan þessi tenging er komin þar sem það að verða leikskólakennari er jú allt annað og ólíkt nám (vissulega að einhverju leyti skylt) sem fer fram á allt annarri námsbraut (í allt öðrum skóla þangað til núna í vetur). Flestir gera líka þannig ráð fyrir því að þeir sem læri viðskiptafræði fari að vinna í banka og þeir sem læri fjölmiðlafræði vinni við fjölmiðla. Þannig flokkar fólk nám og tengir við störf. 

Ástæðan fyrir þessari tilhneigingu fólks til að flokka annað fólk og setja í einfalda bása er ekki endilega einfeldni eða takmörkuð þekking á námi og störfum fólks. Við vitum jú öll að fólk vinnur ekki endilega við það sem það hefur lært. Ég held að takmörkunin felist að mestu leyti í samfélaglegum vana. Enn í dag er það ekki samfélagslega viðurkennt að vilja - eða ætla sér  ekki að "verða" eitthvað mjög "ákveðið" þegar maður er orðin "stór". Við eigum jú öll að hafa háleit markmið og helst að vera búin að skrifa niður leiðir að þessum markmiðum og síðan að spýta í lófana og vinna stöðugt að því að verða eitthvað. 

Út frá þessu félagslega normi - hugsar fólk um menntun. "Ég verð að mennta mig til að verða eitthvað". Af því leiðir að fólk spyr mig (og aðra) hvað það ætli að verða eða gera eftir að hafa lært. 

Ég lendi alltaf í vandræðum með að svara þessari spurningu. Í fyrsta lagi vegna þess að ég lít ekki á menntun sem eitthvað endanlegt. Ég ætla því ekki að gera eitthvað markvisst "eftir" að hafa menntað mig. Þar af leiðandi hef ég aldrei litið á menntun sem leið að því takmarki að "verða eitthvað ákveðið" þegar ég orðin "stór". Á tímabili var ég í mikilli vörn gagnvart þessari spurningu og svaraði yfirleitt með hálfgerðum skætingi - að ég ætlaði auðvitað að verða menntamálaráðherra - en ekki hvað? Í dag ég er aðeins afslappaðri og geri grín að því að ég eigi örugglega bara eitt sameiginlegt með menntamálaráðherra og það eru ljósu lokkarnir. 

Ég geri mér stöðugt betur grein fyrir því að menntun fyrir mér er leið að auknum þroska. Leið til að varpa fram spurningum og móta svör (eða fleiri spurningar). Leið til að kynnast öðru fólki með öðruvísi sjónarmið. Leið til að sameina mismunandi menningar. Leið til að taka þátt í samfélaginu. Leið til að þroska samskiptahæfni og leið til að kynnast sjálfri mér betur eins og ég er núna en ekki leið til að "verða þetta þarna sem ég ætla að verða þegar ég orðin "stór".

Ég er samt ennþá stundum föst í viðjum vanans og gott dæmi um það er þegar Tinna frænka mín kom til mín um daginn og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka þátt í hönnunarsamkeppni um nýjan miðbæ í Hveragerði. Ég hafði sko heldur betur mikinn áhuga á þessu tiltekna málefni. Enda Hveragerði uppeldisbærinn minn og ég mikil áhugamanneskja um samfélagsleg málefni. Ég gat samt sem áður ekki alveg séð fyrir mér hvað ég hefði svosem til málanna að leggja í verkefni sem snéri að hönnun og skipulagningu. Ég hef jú aldrei lært neitt um hönnun eða skipulag. Í raun og veru er ég afspyrnu léleg í að teikna og mér reynist ennþá erfitt, 26 ára gamalli að greina á milli hægri og vinstri. 

Mér fannst verkefnið hins vegar of spennandi til að segja þvert nei og fann að ég hafði stuðning Tinnu frænku í því að taka þátt. Við fórum því á fullt að leita að góðu fólki með okkur og erum nú á fullu að hanna skemmtilega og djarfa hugmynd af nýjum miðbæ í Hveragerði. Öll mín reynsla af uppeldi og menntun hefur nú komið sér einstaklega vel í þessu skipulags- og hönnunar verkefni og ég hef sannarlega öðlast nýja sýn á tilgang og markmið uppeldis- og menntunarfræði. 

Nú held ég að ef fólk spurji mig hvað ég ætli að verða eða gera með þetta nám sem ég er í að mér sé óhætt að nefna hvaða iðn sem er. Maður veit jú aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér og maður ætti heldur aldrei að loka á tækifærin í lífinu eingöngu vegna þess að maður er fastur í viðjum vanans. 


8 comments:

Anonymous said...

Vel skrifað og ég er svo sammála þér með þetta! Veit ekki hversu oft hvað ég hef fengið þessa spurningu, og hvað geturu þá gert, og hvað VERÐUR þú þá, hvað ætlaru þá að fara að vinna við...
Kv. úr sveitinni, Bjarney

Anonymous said...

Hæ pæ!

Hvað gera mannfræðingar? Tell me please!

Gosh hvað ég hlakka til að heyra/sjá útkomuna um miðbæ Hveragerðis frá þér.

Kær kveðja,
Guðrún

Lalli og Eva said...

Hehehe mannfræðingar geta gert hvað sem er líka!!

Já þetta er æði spennandi :)

Anonymous said...

þú ert klár á öllum sviðum litli snillingur

hildur

Ásdís Ýr said...

Ég er svo hjartanlega sammála þér, þetta pirraði mig alveg svakalega áður fyrr og mér fannst á tímabili nauðsynlegt að ná mér í réttindi á einhverju sviði.. ég prufaði það en gafst upp því mér fannst námið allt annað en heillandi.

En annars gangi þér vel með hönnunarverkefnið :) já og skólann...

Lalli og Eva said...

Já það virkar alltaf best að gera það sem manni finnst bara skemmtilegast og áhugaverðast held ég ;)

Takk fyrir kveðjuna Ásdís og gangi þér vel sömuleiðis!! Kveðjur upp í Háskóla frá mér.

Anonymous said...

það að læra leikskólakennarafræði er heldur ekki að ætla að verða leikskólakennari, námið veitir líka sama aðgang að örðum mjög svipuðum mastersnámum og þeir sem útskrifaðir eru úr örðum fræðum tendum uppeldi og menntun. Námið í leikskólakennaranum á akureyri og í kennó hefur líka alltaf verið mjög ólíkt þannig að það er líklega eins ólíkt og þessi tvö svið uppeldis og menntunarfræði og leikskólakennarafræða hins vegar, öllu má nafn gefa enn svo er bara mismunandi hvernig manni líður með það! Kv. Elfa leikskólakennari

Eva Harðardóttir said...

Já nákvæmlega Elfa!! Sammála þér, það nám sem hins vegar gefur réttindi til starfa er að einhverju leyti töluvert einfaldara að flokka og raða í ákveðin hólf. Gefi námið hins vegar ekki réttindi til starfa á fólk erfiðara með að flokka það og raða því. Það sem allt nám gerir hins vegar og það gleymist oft í umræðunni - er að það undirbýr fyrir frekara nám (á hvaða sviði sem er) og stuðlar að persónulegum þroska sé rétt farið með fræðin :)