Tuesday, October 27, 2009

MA ritgerðin

Ég hitti MA leiðbeinandann minn í dag sem táknar í huga mér formlegt upphaf að skrifum. Ég er búin að hugsa heilmikið en skrifa mun minna. Það sem ég hef skrifað hefur verið mjög handahófskennt, sundurslitið og nánast óskiljanlegt. Ýmist á ensku eða íslensku og allt samhengi hefur vantað.

Ég hafði ágætlega stórar hugmyndir áður en ég hitti leiðbeinandann sem heitir Concha og kemur fyrir sem hin skemmtilegasta kona. Concha hafði hins vegar mun stærri hugmyndir og fyrr en varði var ég búin að samþykkja að skrifa samanburðarritgerð (sem var það eina sem ég ætlaði alls ekki að gera), skrifa grein og minni ritgerð fyrir desemberlok og flytja erindi á ráðstefnu í júní í Barcelona.

Hún seldi mér þetta allt með því að kinka ákaft kollinum á meðan hún kynnti hugmyndirnar. Sagði svo á skemmtilegri ensk/spænsku: You like, si, gusta?

..."me gusta" er auðveld setning í spænsku sem kemur meðal annars fyrir milljón sinnum í ágætu spænsku dægurlagi sem eitt sinn var vinsælt á Íslandi (og er ennþá vinsælt hér). Áhrif poppmenningarinnar og áköf líkamstjáning Conchu urðu til þess að ég samþykki allt upp á spænskan máta.

Annars líst mér mjög vel á hana. Hún virkar afslöppuð (mætti til dæmis um það bil 20 mínútum of seint á fundinn okkar og þar af leiðandi um hálftíma of seint á næsta fund) en setur samt sem áður góða pressu - hún lét mig til dæmis hafa eina bók til að lesa fyrir næsta fund okkar sem verður strax eftir helgi. Ég leit á bókina eitt augnablik og byrjaði svo að malda í móinn því mér til skelfingar var bókin á spænsku. "You can do it, good for you" sagði hún, brosti og kinkaði kolli að venju.

Það sem mér líkaði allra best við hana var samt sem áður hversu mikið jafnræði ríkti á milli okkar. Hún talaði ekki í eitt skipti um að hún væri að kenna mér (þó ég sé strax byrjuð að læra af henni) heldur talaði hún um hversu gaman væri að við gætum unnið saman og hún gæti aðstoðað mig við ritgerðina. Hún hafði mikinn áhuga á því sem ég hef gert áður og lítur greinilega á kennarastarfið sem nám fyrir hana sjálfa - sem það einmitt er. Kennsla er menntun og menntun er nám. Tvístefnu ferli sem er í sífelldri mótun.

Hlakka til að vinna meira með þessari konu og vona að við getum skapað eitthvað áhugavert og mikilvægt saman :)

Thursday, October 22, 2009

Innlegg í menntaumræðu á Íslandi

Smá innlegg varðandi þessa grein og hlutverk háskóla almennt:

Ég er sammála mörgu því sem fram kemur í grein Eiríks og fagna opinberri og almennri umræðu um menntamál á Íslandi.

Greinin fjallar hins vegar að mínu mati hvorki um gæði eða getu nemenda né um gæði eða getu kennara, eins og mörg ummæli hér virðast gera að umfjöllunarefni. Hér er mun frekar verið að fjalla um tilgang, breytingar og eiginlegt hlutverk háskóla. Í greininni er því velt upp hvort að viðskipta- og markaðsvæðing 21. aldarinnar í bland við auknar samkeppniskröfur hafi í raun og veru bætt gæði náms (ekki kennara eða nemenda).

Með viðskiptavæðingu háskólanna hefur ekki einungis verið ýtt undir samkeppni milli háskóla heldur hefur hlutverk þeirra og tilgangur breyst. Nemendur eru nú skilgreindir sem viðskiptavinir og menntun sem fullunnin afurð. Krafa um “efficiency” frekar en “effectiveness” hefur leitt til þess að einhverjir háskólar hafa neyðst til að leggja meiri áherslu á magn umfram gæði.

Það er mikilvægt að benda á hér í þessu samhengi að alþjóðavæðing og áhrif hennar (nýfrjálshyggja og markaðs- og viðskiptavæðing opinberra geira) er ekki eingöngu eitthvað fyrirbæri sem er þröngvað upp á lönd, ríki eða stofnanir heldur er alþjóðavæðing og áhrif hennar sköpuð og endursköpuð innan landa, ríkja og stofnanna með ýmis konar ákvarðanatöku og stefnumótun.

Réttilega er bent á að háskólar séu ein af mikilvægustu stofnunum hvers samfélags og ættu því ekki að láta stjórnast af samkeppni, nútímavaldvæðingu og græðgishugsjónum. Háskólum ber að hafa lýðræðislegt og borgaralegt gildi og undirbúa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi sem tekur sífelldum breytingum.

Á Íslandi er gott menntakerfi - en alltaf er þó hægt að gera betur. Það er mikilvægt að hafa í huga að menntun er lifandi afl sem mótast og þróast í takt við menningu og fólk. Menntakerfi og þeir sem það móta þurfa því ávallt að stunda góða ígrundun og huga stöðugt að raunverulegu og siðferðislegu hlutverki menntunar fyrir borgarana (ekki viðskiptavini).
Háskólamenntun á Íslandi snertir því allt samfélagið eins og Eiríkur bendir réttilega á. Háskólar eiga að veita öllum borgurum aðgang að fjölbreyttri menntun - huga að gæðum frekar en magni og láta ekki stjórnast af viðskiptahugmyndum sem byggja á nýfrjálshyggju og gróðasjónarmiðum. Það eru borgaraleg réttindi alls fólks að sækja sér háskólamenntun þar sem fram fer lýðræðisleg samfélagsleg og pólitísk umræða.