Ég hitti MA leiðbeinandann minn í dag sem táknar í huga mér formlegt upphaf að skrifum. Ég er búin að hugsa heilmikið en skrifa mun minna. Það sem ég hef skrifað hefur verið mjög handahófskennt, sundurslitið og nánast óskiljanlegt. Ýmist á ensku eða íslensku og allt samhengi hefur vantað.
Ég hafði ágætlega stórar hugmyndir áður en ég hitti leiðbeinandann sem heitir Concha og kemur fyrir sem hin skemmtilegasta kona. Concha hafði hins vegar mun stærri hugmyndir og fyrr en varði var ég búin að samþykkja að skrifa samanburðarritgerð (sem var það eina sem ég ætlaði alls ekki að gera), skrifa grein og minni ritgerð fyrir desemberlok og flytja erindi á ráðstefnu í júní í Barcelona.
Hún seldi mér þetta allt með því að kinka ákaft kollinum á meðan hún kynnti hugmyndirnar. Sagði svo á skemmtilegri ensk/spænsku: You like, si, gusta?
..."me gusta" er auðveld setning í spænsku sem kemur meðal annars fyrir milljón sinnum í ágætu spænsku dægurlagi sem eitt sinn var vinsælt á Íslandi (og er ennþá vinsælt hér). Áhrif poppmenningarinnar og áköf líkamstjáning Conchu urðu til þess að ég samþykki allt upp á spænskan máta.
Annars líst mér mjög vel á hana. Hún virkar afslöppuð (mætti til dæmis um það bil 20 mínútum of seint á fundinn okkar og þar af leiðandi um hálftíma of seint á næsta fund) en setur samt sem áður góða pressu - hún lét mig til dæmis hafa eina bók til að lesa fyrir næsta fund okkar sem verður strax eftir helgi. Ég leit á bókina eitt augnablik og byrjaði svo að malda í móinn því mér til skelfingar var bókin á spænsku. "You can do it, good for you" sagði hún, brosti og kinkaði kolli að venju.
Það sem mér líkaði allra best við hana var samt sem áður hversu mikið jafnræði ríkti á milli okkar. Hún talaði ekki í eitt skipti um að hún væri að kenna mér (þó ég sé strax byrjuð að læra af henni) heldur talaði hún um hversu gaman væri að við gætum unnið saman og hún gæti aðstoðað mig við ritgerðina. Hún hafði mikinn áhuga á því sem ég hef gert áður og lítur greinilega á kennarastarfið sem nám fyrir hana sjálfa - sem það einmitt er. Kennsla er menntun og menntun er nám. Tvístefnu ferli sem er í sífelldri mótun.
Hlakka til að vinna meira með þessari konu og vona að við getum skapað eitthvað áhugavert og mikilvægt saman :)