Smá innlegg varðandi þessa grein og hlutverk háskóla almennt:
Ég er sammála mörgu því sem fram kemur í grein Eiríks og fagna opinberri og almennri umræðu um menntamál á Íslandi.
Greinin fjallar hins vegar að mínu mati hvorki um gæði eða getu nemenda né um gæði eða getu kennara, eins og mörg ummæli hér virðast gera að umfjöllunarefni. Hér er mun frekar verið að fjalla um tilgang, breytingar og eiginlegt hlutverk háskóla. Í greininni er því velt upp hvort að viðskipta- og markaðsvæðing 21. aldarinnar í bland við auknar samkeppniskröfur hafi í raun og veru bætt gæði náms (ekki kennara eða nemenda).
Með viðskiptavæðingu háskólanna hefur ekki einungis verið ýtt undir samkeppni milli háskóla heldur hefur hlutverk þeirra og tilgangur breyst. Nemendur eru nú skilgreindir sem viðskiptavinir og menntun sem fullunnin afurð. Krafa um “efficiency” frekar en “effectiveness” hefur leitt til þess að einhverjir háskólar hafa neyðst til að leggja meiri áherslu á magn umfram gæði.
Það er mikilvægt að benda á hér í þessu samhengi að alþjóðavæðing og áhrif hennar (nýfrjálshyggja og markaðs- og viðskiptavæðing opinberra geira) er ekki eingöngu eitthvað fyrirbæri sem er þröngvað upp á lönd, ríki eða stofnanir heldur er alþjóðavæðing og áhrif hennar sköpuð og endursköpuð innan landa, ríkja og stofnanna með ýmis konar ákvarðanatöku og stefnumótun.
Réttilega er bent á að háskólar séu ein af mikilvægustu stofnunum hvers samfélags og ættu því ekki að láta stjórnast af samkeppni, nútímavaldvæðingu og græðgishugsjónum. Háskólum ber að hafa lýðræðislegt og borgaralegt gildi og undirbúa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi sem tekur sífelldum breytingum.
Á Íslandi er gott menntakerfi - en alltaf er þó hægt að gera betur. Það er mikilvægt að hafa í huga að menntun er lifandi afl sem mótast og þróast í takt við menningu og fólk. Menntakerfi og þeir sem það móta þurfa því ávallt að stunda góða ígrundun og huga stöðugt að raunverulegu og siðferðislegu hlutverki menntunar fyrir borgarana (ekki viðskiptavini).
Háskólamenntun á Íslandi snertir því allt samfélagið eins og Eiríkur bendir réttilega á. Háskólar eiga að veita öllum borgurum aðgang að fjölbreyttri menntun - huga að gæðum frekar en magni og láta ekki stjórnast af viðskiptahugmyndum sem byggja á nýfrjálshyggju og gróðasjónarmiðum. Það eru borgaraleg réttindi alls fólks að sækja sér háskólamenntun þar sem fram fer lýðræðisleg samfélagsleg og pólitísk umræða.
Thursday, October 22, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment