Saturday, January 23, 2010

PHD nám

er eitthvað sem ég hugsa um á hverjum degi núna. Vildi að þetta væri ekki jafn mikill frumskógur og raun ber vitni. Ef ég gæti bara fundið draumanámið, skólastyrkinn fyrir því og að þetta allt saman væri nú í óskalandinu mínu! Þá væri lífið aðeins minna flókið :)

Ætti kannski að leggja þetta til hliðar í smá stund, einbeita mér að MA verkefninu og halda dampi þar. Vona síðan bara að eitthvað birtist mér alveg óvænt, hálf detti upp í hendurnar á mér og sé akkúrat fyrir mig.

...já einmitt það má alltaf halda í vonina. Þetta virkar víst ekki alveg þannig, það þarf víst að leita og leita ennþá meira og senda óteljandi umsóknir og skrifa óteljandi "própósala" og fá endalaus meðmæli og svo framvegis! Svo er bara vonandi að vinnan skili sér á endanum.

Friday, January 15, 2010

MA verkefnið tekur á sig mynd...

Dvölin á Íslandi var þrusugóð fyrir okkur Lárus bæði andlega og líkamlega. Það fylgir því alltaf einhver orka að hitta fólkið sitt, tala málið sitt og þekkja sig vel í öllum aðstæðum. Það er nefnilega alveg ótrúlega orkufrekt og erfitt að vera útlendingur til lengri tíma litið. Að búa í borg þar sem maður þekkir ekki staðhætti, þarf oft að spyrja til vegar, er ekki alveg viss um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig og svo framvegis. Ofan á auðvitað málleysið. En allt tekur þetta bara sinn tíma og vonandi fyrr en síðar verðum við komin í það sem kallast "comfort zone".

Varðandi líkamlega þáttinn varð ég reyndar veik og eyddi alveg rúmri viku í það að halda mig innandyra. Sem var kannski bara akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Að vera inni, læra og fá þjónustu frá mömmu og pabba. Ég held að við Lalli verðum að minnsta kosti nokkra daga að átta okkur á því að það er enginn sem þvær þvottinn okkar, eldar ofan í okkur dýrindis máltíðir eftir pöntun og býr um rúmið okkar. Hvað ætli það taki að fá mömmu og pabba bara til að flytja hingað til Spánar?

En svo er það líka hin hliðin á þessu öllu saman. Að vera sjálfstæður, ekki upp á neinn annan komin, þurfa að bjarga sér, þurfa að ströggla, leysa vandamál á hverjum degi, stappa í hvort annað stálinu og svo framvegis. Það ætti nú að gefa manni eins og einn bolla af lífsreynslu sem má nota í framtíðinni.

Fyrstu tveir dagarnir eftir heimkomu til Bilbao fóru í að læra þar sem ég átti að skila af mér tveimur og jafnframt síðustu annar-ritgerðum. Það er að segja ritgerðum sem segja til um einkunn og árangur hjá mér fyrir hverja önn. Næsta önn sem hefst formlega ekki fyrr en 1. mars verður síðan undirlögð í "stóru ritgerðina" eða MA ritgerðina. Ég fer í próf 20. janúar og 27. janúar og síðan hefst vinna og undirbúningur fyrir MA ritgerðina.

Sá undirbúningur er reyndar löngu hafinn þar sem ég bý svo vel að eiga gott fólk alls staðar að og gat nýtt jólafríið í að komast í smá viðtal hjá Sigrúnu Aðalbjarnardóttur sem hefur verið minn mentor á Íslandi. Við ræddum ritgerðarhugmyndir fram og aftur og enduðum að lokum á nokkuð spennandi og góðri hugmynd að mínu mati. Reyndar mjög langt frá því sem ég upphaflega hafði ætlað mér en samt sem áður innan þess ramma sem ég setti mér alveg í byrjun. Það er að segja þegar ég hóf námið. Þá ákvað ég að einbeita mér og sérhæfa mig sem mest ég gæti í borgaravitund og menntun. Ég hef síðan reynt að útfæra það hugtak á ýmsa vegu og með mismunandi hætti í öllum smærri ritgerðum sem ég hef unnið á sl. einu og hálfa ári.

Hugmyndin er eins og staða er í dag að skrifa um menntastefnur á Íslandi og Spáni í nokkurs konar samanburðarstíl, þó ekki klassískum heldur frekar í svona post-modern stíl þar sem ég er ekki mjög spennt fyrir því að fylgja alveg klassísku hefðinni. Enda mikið um nýjar leiðir og óhefðbundnari aðferðir innan fagsins núna síðustu ár. Mig langar að taka fyrir stefnur sem snúa að grunnskólanum og athuga hvort og hvernig borgaravitund hefur birst í opinberum skjölum, gögnum og stefnum frá hinu opinbera (og jafnvel frá einkageira ef það er eitthvað um slíkt). Ef það gefst tími til þá langar mig líka að huga að hugtökum á borð við lýðræði og fjölbreytileiki eða diversity. Það sem ég hef síðan hug á að greina er í raun hvers konar nálgun er höfð að leiðarljósi í þessum stefnum, það er hvort það sé verið að innleiða hugtökin á gagnrýnin hátt eða ekki, hvort að pósitívismi eða constructivismi virðast ráða för og hvort að hugtökin séu á einhvern hátt tengd einhverri greinanlegri orðræðu. Að hafa Spán síðan sem samanburðarland finnst mér alveg ideal þar sem Spánn og Ísland virðast að mörgu leyti glíma við áþekk samfélagsleg vandamál og vera komin álíka langt í að innleiða þessi hugtök inn í menntapólitíkina. Bæði löndin eru svokölluð "new immigrant" lönd þar sem tala innflytjenda hefur stigið hratt á töluvert stuttu tímabili. Í báðum löndum hefur viðhorf til útlendinga versnað og í báðum löndum er opinbert menntakerfi sem þjónar miklum meirihluta barna og unglinga á aldrinum 6 -16 ára og hefur því ákveðnum skyldum að gegna að takast á við samfélagið og samfélagslegar breytingar eins og þær koma fyrir í umhverfi þessara ungu borgara.

Ég býð nú spennt eftir vorinu því þá ætla ég að fara á ráðstefnu um þessi málefni í BC og hlusta á vonandi áhugaverða og spennandi fyrirlestra. Hvort ég verð með fyrirlestur líka kemur í ljós í miðjum febrúar.