Monday, October 27, 2008

Minningargrein 26. október 2008 - Morgunblaðið

Afar eru þarfaþing

Á Vopnafirði skín sólin og amma leiðir mig. Við hittum afa og hann gefur mér marglitt armband úr búðinni. Ég hleyp um í stóra garðinum í Kambahrauni og kalla á eftir afa: Afi skafi! Afi hlær. Ég horfi á afa smíða í bílskúrnum. Ég flýti mér að sofna á kvöldin þegar ég er í pössun hjá afa og ömmu því afi hrýtur svo hátt. Ég spila marías við afa allan daginn og drekk mjólk úr Tomma og Jenna glasi – afi leyfir mér stundum að vinna.

Ég fer í golf með afa og hann kennir mér að pútta án þess að beygja úlnliðinn. Ég sit á kaffihúsi í París með afa og við horfum á fólkið. Ég kem í mat til ömmu og afa í Breiðholtið og rökræði um pólitík og heimsmál við afa – hann leyfir mér ekki lengur að vinna heldur hlær að mér þegar ég er orðin rauð í framan af æsingi. En ég fæ samt ennþá að strjúka honum um skallann og kúra smá stund í hálsakotið hans þegar við sitjum saman í sófanum - þó ég sé orðin fullorðin - því ég verð alltaf afastelpa.

5 comments:

Anonymous said...

Mikið er ég sammála: afar eru þarfaþing.
Yndisleg lesning.

Stórt knús til köben frá Ak city

Lalli og Eva said...

Thanx honny!!

Anonymous said...

Ég sendi þér og þínum samúðarkveðjur.
Guðrún

Anonymous said...

mmmmm Æðislega fallegt - eins og þér er lagið. KOSSAR

Telma said...

Æi váhh Eva mín... ég fæ næstum bara tár í augun á lesa þetta. Sé þetta allt fyrir mér og skil þig svo vel :D Enda var afi þinn yndislegur maður. Knús á þig sætasta mín!!